Garðatorg - nýr miðbær

Klasi hefur frá árinu 2005 leitt vinnu við þróun á nýjum miðbæ í Garðabæ í samstarfi við bæjaryfirvöld í kjölfar ákvörðunar Garðabæjar um að efla og endurskipuleggja miðbæinn í Garðabæ. Fyrsta áfanga þessa verkefnis lauk í júní 2008 með opnun verslunarkjarnans við Litlatún 3, á mótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar en hann hefur reynst afar vinsæll og er vel sóttur af Garðbæingum og nærsveitungum.

Upphaflegar skipulagshugmyndir tóku breytingum í kjölfar efnahagsáfallsins sem reið yfir árið 2008 og voru þær teknar til gagngerrar endurskoðunar. Nýtt deiliskipulag var samþykkt 2012 og fljótlega í kjölfarið hófust framkvæmdir við sjálft Garðatorgið. Næsta áfanga verkefnisins lauk með byggingu 32 íbúða við Kirkjulund en þar byggði verktakinn Kristjánssynir ehf. tvö fjölbýlishús með sameiginlegri bílageymslu árið 2013.

Lokið var við byggingu 7000 fm. bílakjallara með stæðum fyrir 135 bíla á Garðatorgi vorið 2014 og allt yfirborðið endurnýjað í anda nýs deiliskipulags. THG arkitektar hönnuðu bílakjallarann og yfirborðshönnunin var í höndum Landslags. Byggingu Garðatorgs 4 og 2 lauk árið 2016 en byggingaaðila þar var ÞG verk. Í Garðatorgi 4 eru 42 íbúðir á 4-5 hæðum en á jarðhæðinni eru 8 verslunar- og þjónusturými sem hófu starfsemi árið 2016. Þar er fjölbreytt starfsemi, m.a. Mathús Garðabæjar sem notið hefur mikilla vinsælda. Klasi sá um þróun og útleigu verslunar- og þjónusturýma. Garðatorg 2 hýsir síðan íbúðir. Undir báðum þessum húsum er einkabílakjallari fyrir íbúa.

Lokaáfangi verkefnis er bygging Garðatorgs 6, með 12 íbúðum og 3 verslunar-og þjónusturýmum. Byggingu lauk árið 2017 og hófu verslanir starfsemi árið 2018. Þar er enn aukið á fjölbreytileika þjónustu í miðbæ Garðabæjar.

Samvinna Klasa og Garðabæjar hefur frá upphafi gengið vel og er gott dæmi um hvernig einkaaðilar og sveitarfélög geta unnið saman að jákvæðri uppbyggingu íbúum til hagsbóta.

Gildandi deiliskipulag frá 2012:

 

Önnur

núverandi verkefni

No items found.